
Fyrir Kennara
Að leiða með hjarta
Sögur geta snert okkar dýpstu tilfinningar, kveikt á hormónum og tengst grunngildum okkar. Þess vegna er mikilvægt að nálgast frásagnalist af ábyrgð. Við höfum safnað nokkrum ráðum fyrir leiðbeinendur um hvernig á að skapa og viðhalda öruggu og vinalegu rými þar sem öllum finnst þeir geti deilt sínum sögum. Lærðu hvernig þú getur gert frásagnalist að upplifun sem byggir á jákvæðni og virðingu.
Öruggt rými
Búðu til umhverfi þar sem fólk finnur fyrir virðingu, er samþykkt og því er frjálst að tjá sig án þess að óttast að það verði dæmt, því mismunað eða það verði fyrir skaða.
Öruggt rými er líkamlegt eða tilfinningalegt umhverfi sem hvetur til samtala sem eru inngildandi og þar sem sýnd er virðing. Í vinnustofu um frásagnalist ætti umhverfið að vera skapað í sameiningu af leiðbeinendum, þátttakendum og skipuleggjendum, en leiðbeinendur eru á staðnum til að leiða ferlið, setja tóninn og tryggja að allir upplifi að á þá sé hlustað, þeir metnir og þeim sýnd virðing.
-
Hvetjið þátttakendur til að setja og virða eigin mörk. Það að deila sögu ætti alltaf að vera valfrjálst og enginn ætti að finna fyrir þrýstingi til að upplýsa um eitthvað eða gera eitthvað sem þeim líður ekki vel með. Hvetja skal þátttakendur til að tjá sig og segja hvar þeirra mörk liggja vitandi að það mun ekki hafa neinar neikvæðar afleiðingar.
-
Æfðu hlustun sem byggir á samúð og þar sem enginn er að dæma. Einbeittu þér að því að skilja frekar en að trufla eða bjóða upp á lausnir, nema sérstaklega sé beðið um það. Hlustaðu á þær sögur sem er deilt, ekki bara viðbrögð þín við því sem sagt er.
-
Tryggðu að þátttakendur skilji tilgang og skilyrði með þeim verkefnum sem lögð eru til. Minntu þá á að þeir geta hafnað þátttöku, deilt sögum sínum á eigin forsendum, sleppt spurningum eða sleppt hlutum úr sögum sínum án þess að finna fyrir þrýstingi. "Þú getur alltaf setið hjá; þú verður ekki metinn eða dæmdur fyrir það sem þú velur að segja frá eða sleppa."
-
Hvetjið til menningar innan hópsins þar sem trúnaður ríkir og gangið úr skugga um að þær sögur sem er deilt verði farið með sem einkamál og verði ekki bornar áfram til annarra utan hópsins. Það sem sagt er í herberginu verður áfram í herberginu.
-
Forðist að dæma reynslu annarra, trú eða frásagnarstíl þeirra. Hvetjið til umhverfis sem er inngildandi og styðjandi.
-
Við hlustum á hverja sögu með góðvild og skilningi og erum nærgætin gagnvart tilfinningalegum þörfum og reynslu annarra.
-
Hvetjið þátttakendur til að taka þátt á þann hátt sem þeim þykir þægilegastur hvort sem það er með því að deila sínum sögum, virkri hlustun eða bara með því að fylgjast með.
-
Við virðum alltaf þegar einhver þarf að taka pásu, vill stíga til hliðar eða taka sér hlé og efumst ekki um þá ákvörðun viðkomandi. Þátttakendum er velkomið að fara úr herberginu vitandi að starfsemin mun halda áfram og að þeir muni ekki trufla ferlið. Engum ætti að líða illa vegna einhvers annars.
-
Við notum inngildandi mál og staðhæfingar sem styðja og staðfesta sjálfsmynd og reynslu allra þátttakenda. Mistök geta gerst og munu gerast. Leyfðu öðrum að læra og breytast.
-
Búðu til rými sem er þægilegt fyrir mismunandi líkama og gerir öllum kleift að líða vel og taka fullan þátt.
-
Hvetjið þátttakendur til að leggja til og bæta nýjan leiðarvísi sem hjálpa til við að skapa öruggt og styðjandi rými fyrir alla.
Ábyrg frásögn
Upplýst samþykki
Þegar þú býður öðrum að deila sögum sínum skaltu veita skýrar upplýsingar um hvernig sögurnar þeirra verða notaðar og fáðu samþykki þeirra áður en haldið er áfram. Sögumenn ættu að gera sér grein fyrir hvernig sögur þeirra verða geymdar, þeim deilt og þær meðhöndlaðar. Mikilvægt er að virða friðhelgi þeirra, bjóða upp á val um nafnleynd eða að þeir hætti við þátttöku og tryggja trúnað. Það sem skiptir mestu máli er að samþykki er aðeins gilt ef það er algerlega upplýst.
Höfundaréttur
Eignaréttur á sögu er grundvallarréttur sögumanns. Fólk á sínar eigin sögur og ætti að vera viðurkennt sem höfundur þeirra. Spyrðu alltaf um leyfi áður en þú deilir sögu annarra og nefndu höfundinn með nafni ef leyft er en virðið það ef viðkomandi kýs nafnleynd.
Umboð sögumanns
Sögumenn ættu að hafa frelsi til að velja hvaða sögu þeir deila, hvernig þeir deila henni, og hvernig þeir eru kynntir. Mikilvægt er að skapa öruggt og styðjandi umhverfi sem virðir val þeirra og er valdeflandi fyrir þá. Þetta felur í sér réttinn til að sleppa spurningum eða hætta að segja frá hvenær sem er.
Ómeðvituð skilaboð
Hjálpaðu sögumönnunum að vera skýrir og meðvitaðir um skilaboð sín. Hvetjið þá til að vera einlæga og heiðarlega en einnig að hugsa á gagnrýninn hátt um tilgang sögunnar, áhorfendur og möguleg áhrif. Leiðbeindu þeim við að forðast tvíræðni, óviljandi tákn eða staðalímyndir. Styðjið þá í að velja orð sem passa við tilfinningarnar sem þeir vilja vekja. Stuðlaðu að siðferðilegri frásögn sem hefur engin dulin áform á prjónunum.

Að styðja við sögur. Ábending til leiðbeinenda varðandi áfallanæma handleiðslu og tilfinningalegan stuðning
Í heimi sem er stöðugt að þróast og breytast er ekkert vafamál að sögurnar sem eru sagðar geta verið mismunandi hvað varðar ákefð, dýpt og merkingu. Stundum er saga bara eitthvað sem þú segir til að láta tímann líða eða koma einhverjum til að hlæja; í öðrum tilvikum er hún upplifun sem nær inn í sálarlíf manns, þar sem hlustandinn getur farið með í ferðalag eða horft á það eins og á sem rennur fram hjá.
Þegar við vinnum með sögur er öruggt að búast við hinu óvænta. Sem leiðbeinendur opnum við okkur fyrir risastóru verkefni: að styðja við sögur annarra.
Að styðja við sögur
Áður en við biðjum fólk um að deila sögum verðum við að tryggja að við höfum rými til að taka á móti og styðja við þær sögur sem við heyrum. Þetta þýðir svipað og að setja okkur sjálf til hliðar. Það þýðir að skilja áhyggjur okkar eftir við dyrnar og skuldbinda okkur, sem leiðbeinendur, til að styðja við hverja sögu eins og hún sé egg sem sögumaðurinn kastar í áttina til okkar. Við erum á staðnum til að bæði sagan og sögumaðurinn séu eins öruggu og hægt er á meðan á vinnustofunni stendur.
Þetta þýðir ekki að þú munir ekki sýna nein tilfinningaleg viðbrögð. Þegar við opnum okkur sjálf til þess að geta stutt sögur annarra, opnum við okkur þvert á móti fyrir þeim möguleika að rifja upp áföll sem við gætum hafa upplifað. Sýndu þér þá vægð að upplifa það sem þú ert að finna um leið og þú heldur áfram að vera eins stuðningsríkur og mögulegt er. Ef þér finnst þú tilfinningasamur og finnst þú þurfa að halda áfram skaltu deilda með hópnum því sem þú ert að upplifa. Við sem leiðbeinendur verðum stundum að leiða með góðu fordæmi. Sumir geta ekki verið fyrri til að berskjalda sig, svo þetta er hæfileiki sem leiðbeinandi í vinnustofu um frásagnalist getur æft!
Þegar við bjóðum fólki í vinnustofunum okkar að deila sögum verðum við fyrst að vera tilbúin til þess sjálf. Ekki biðja aðra um að gera það sem þú ert ekki tilbúinn að gera. Þó þú sért kannski að stjórna vinnustofunni ert þú jafn mikill þátttakandi og allir aðrir í herberginu. Við hvetjum þig til að leiða með því að berskjalda sjálfan þig upp að því marki sem þú treystir þér til og getur deilt með öðrum auk þess að vera með opinn huga og hjarta þegar þú hlustar á þær sögur sem eru sagðar. Ekki bara sögurnar sem eru sagðar, heldur er einnig mikilvægt að lesa í líkamstjáningu og óyrtar vísbendingar fólks.
Tilfinningaleg athugun
Við hvetjum leiðbeinendur til að vera tilfinningalega meðvitaðir. Þegar fólk berskjaldar sig og deilir persónulegum sögum ættum við að leitast við að hlusta og ekki dæma, óháð því hvað við heyrum. Við ættum að gera okkar besta til að aftengjast ekki tilfinningum okkar og flýja það sem okkur gæti fundist tilfinningalega erfitt heldur fara nær tilfinningunni og leyfa okkur að dvelja í augnablikinu. Sérhver einstaklingur sem deilir sögu á virðingu skilið. Vinsamlegast útskýrðu fyrir þátttakendum að þeir eigi ekki að trufla, ekki ræða saman ef einhver er að tala og ef þörf er á að þýða eitthvað að virða að við getum komið frá mismunandi bakgrunni en erum öll með það sama markmið að finna það sem við eigum sameiginlegt. Þetta getur leitt til heilunar og tengsla við hvort annað.
Það sem þarf að hafa í huga er að stundum bera tilfinningarnar okkar hagnýta eða vitsmunalega sjálf ofurliði og hlutirnir geta orðið þyngri en búist var við.

„Að vera meðvitaður leiðbeinandi um áföll þýðir að þú skilur að:
1. Fólk hefur upplifað áföll, hvort sem það segir þér frá því sjálft, á undan eða aldrei.
2. Gerðu þér grein fyrir að áföll hafa varanleg áhrif á andlega, tilfinningalega, líkamlega og félagslega velferð einstaklings.
3. Gerðu þér grein fyrir að áhrif áfalla geta truflað nám, vöxt og heilun.“
Understanding Trauma-Informed Facilitation:
Community Conversations as Nonprofit Leaders
Mikilvæg ráð
Hér eru nokkur atriði sem leiðbeinendur ættu að hafa í huga:
Vera styðjandi!
Þegar fólk hefur hugrekki til að deila ætti það að fá hrós fyrir.
Þeir sem hlusta eru að upplifa heim af tilfinningum innra með sér sem við erum ekki meðvituð um.
Margar sögur geta vakið upp minningar hjá fólki og stundum eru þær minningar ekki góðar. Ef einhver þátttakandi þarf að fara út úr herberginu af einhverjum ástæðum hefur hann fullan rétt á því. Stundum þurfa þeir að fá tíma til að slaka á, stundum eru tilfinningarnar yfirþyrmandi og í önnur skipti getur verið of krefjandi fyrir suma að sitja kyrrir. Þetta eru allt alveg ásættanlegir hlutir. Það getur verið gagnlegt að hafa annan aðstoðarmann í vinnustofunni sem getur farið út og athugað hvernig þátttakendur sem þurftu pásu hafa það og boðið stuðning, huggun eða það sem þátttakandinn þarf á að halda á þeim tíma.
Styddu við sögur þeirra og virtu trúnað.
Gerðu öllum þátttakendum skýra grein fyrir því að sögurnar sem þeir heyra í vinnustofunni á ekki að segja öðrum utan vinnustofunnar. Við segjum okkar eigin sögur og leyfum öðrum að segja sínar.
Bjóddu upp á rými til að tengjast og deila ráðum.
Þar sem þessar upplýsingar eru hér settar fram með það að markmiði að hjálpa jaðarsettum hópum að finna tengingu er ekki ólíklegt að erfiðleikar sem tengjast ákveðnum aðstæðum komi upp í sögunum. Bjóddu upp á tíma í lok vinnustofunnar til að ræða hvort þátttakendur vilji fá ráðleggingar í tengslum við þessi ákveðna málefni. Enginn er skuldbundinn til þess en þetta getur verið gott tækifæri til að finna bandamenn eða fólk sem hefur svipaða reynslu og heyra hvað virkaði (og virkaði ekki) fyrir þau.
Leyfðu tilfinningar.
Láttu þátttakendur vita að rýmið sem þeir eru í sé öruggt (við vonum að þú hafir sett fram einhverjar grunnreglur í byrjun sem skilgreina hvað er öruggt rými). Þeir hafa leyfi til að hætta að segja sögu hvenær sem er og þeir hafa leyfi til að tjá tilfinningar sínar á meðan þeir segja sögurnar sínar. Þátttakendum ber ekki skylda til að halda andliti meðan á æfingum stendur. Sem leiðbeinendur hvetjum við þátttakendur til að taka á móti tilfinningum annarra með vægð og samþykki.
Að endurheimta ró.
Það getur stundum verið gott að hafa í huga að eftir hafa setið saman og hlustað á margar, þungar frásagnir getur hreyfing hjálpað fólki að ná aftur ró í líkamann. Það er hægt að nota æfingar eins og jóga, djúpa öndun og teygjur til að hjálpa fólki að kjarna sig í líkama sínum. Hafðu hreyfingarnar litlar, rólegar og ljúfar þar sem fólki gætu fundist hreyfingar óþægilegar ef því finnst það berskjaldað eða viðkvæmt tilfinningalega.
Starf með viðkvæmum hópum
-
Það er oft einfaldara en margir kennarar átta sig á að gera viðburði og vinnustofur aðgengilegar. Með því að skipuleggja starfsemi eða vinnustofu fyrir fram gefst tími til að bera kennsl á og draga úr hindrunum sem koma í veg fyrir þátttöku. Ávallt skal leitast við að veita hugsanlegum þátttakendum gagnsæjar upplýsingar um aðgengismál. Íhugaðu til dæmis hvort viðburðurinn sé barnvænn eða henti skynsegin fólki. Tryggðu aðgengi hjólastóla, hentugar leiðir fyrir almenningssamgöngur og bjóddu upp á fjölbreyttar samskiptaleiðir. Komdu á framfæri með skýrum hætti hvar viðburðurinn verður haldinn og bjóddu upp á nánari leiðbeiningar ef staðsetning rýmis er ekki augljós.
-
Þegar markmiðið er að ná til ákveðinna hópa skaltu leita stuðnings frá sérfræðingum, leiðtogum í samfélaginu, þýðendum eða öðrum fagaðilum til að bæta aðgengi. Kynntu þér inngildandi aðferðir til að fjölbreyttur hópur fólks upplifi að það sé velkomið og hvatt til að taka fullan þátt.
-
Hafið í huga mismunandi hefðir frásagnalista. Hvetjið þátttakendur til að deila sínum hefðum og menningarlegu gildum sem veitir þeim tækifæri til að móta rammann utan um starfsemina. Gerið ykkur grein fyrir að frásagnir fela í sér munnlegar hefðir, ljóð, söngva, dans, myndlist og stafræna miðlun sem gefur þátttakendum frelsi til að velja sinn uppáhalds miðil. Þessi inngildandi nálgun eykur samúð og dýpkar menningarlegan skilning.
-
Hvetjið þátttakendur til að nota móðurmál sitt þegar þau segja frá því á þann hátt varðveita þau menningu sína, styrkja trúverðugleika sögunnar og efla eigin sjálfsmynd. Búið til rými sem tekur vel á móti öllum tungumálum og bjóðið upp á aðstoð við þýðingar eða stuðning þegar þess er þörf. Hvetjið til forvitni um minna þekkt tungumál og stuðlið að samstarfi með því að vinna verkefni sem hafa það að markmiði að brúa bilið vegna tungumálaerfiðleika. Það getur verið valdeflandi fyrir hóp að læra að brúa saman bilið milli tungumála með því að nota tungumál sem allir þekkja eða forrit eins og Google Translate. Notið færni þátttakenda til að stuðla að inngildingu.
-
Veitið skýrar leiðbeiningar um starfsemina og rýmið. Áður en þið byrjið er mikilvægt að útskýra dagskrána, herbergjaskipan (klósett, matur, hlé) og hvar í rýminu þátttakendur vilja sitja (t.d. snúa að vegg, hurð eða glugga). Lýstu aðgengi og útgönguleiðum. Það hjálpar þátttakendum að upplifa öryggi og líða vel í nýju rými ef þeir vita við hverju þeir eiga að búast. Þá getur það auk þess hjálpað þeim sem taka reglulega þátt að hópurinn setji sér leiðarljós um hegðun til að tryggja að andrúmsloftið sé jákvætt fyrir alla.
-
Með því að nota leikmuni, kveikjur og verkefni sem ekki tengjast frásagnalist er hægt að minnka álag og gera upplifunina afslappaðri. Verkefni eins og handavinna, teikning eða skissur geta róað taugarnar á meðan leikmunir og kveikjur vekja áhugaverð og skemmtileg samtöl. Myndir hjálpa einnig til við að tjá tilfinningar, gildi og drauma án orða. Sumum kann að finnast þægilegra að deila sínum sögum á meðan þeir gera eitthvað annað verkefni svo það að innleiða verklega þætti getur styrkt félagsleg tengsl og byggt upp traust.
-
Eftir að öllum frásögnum er lokið ætti að búa til öruggt rými þar sem hægt er að líta yfir það sem var gert og þakka þeim sem tóku þátt fyrir það hugrekki sem þau sýndu. Takið stöðuna á tilfinningalegu ástandi og bjóðið upp á stuðning ef þess er þörf. Dragið fram sameiginleg þemu með það að markmiði að hvetja til tengslamyndunar og ljúkið samverunni með því að þakka þeim sem tóku þátt og gefið tækifæri til óformlegs spjalls.
-
Við gerum oft ráð fyrir að við vitum hvað er best fyrir þann hóp sem tekur þátt í vinnustofunni en ábendingar frá samfélaginu geta veitt okkur dýrmæta innsýn. Að virkja fólkið í samfélaginu hjálpar ekki aðeins við að mæta þörfum þeirra, heldur stuðlar það einnig að því að þau upplifi sig tilheyra, að þau eigi hlut að máli og tengist ferðalaginu.
-
Takið þátt í og skipuleggið vinnustofur fyrir kennara og leiðtoga í samfélaginu til að bæta færni og byggja upp sjálfstraust í að leiða verkefni sem tengjast frásagnalist. Lærið um styðjandi leiðir og viðkvæma, áfallatengda nálgun til þess að geta stutt við frásagnalist sem byggir á siðferðiskennd, samkennd og er valdeflandi fyrir jaðarsettar raddir.