21 dagur: Áskorun í frásagnalist
Þessi 21 dags áskorun hjálpar einstaklingum að koma sér upp venjum við að skrifa sögur, eykur sköpun og býr til jákvæðar breytingar með daglegum verkefnum frásagnalista.
Tími: 21 dagur. Hver þátttakandi fyrir sig ákveður hversu lengi hann skrifar.
Erfiðleikastig: 2/5
Undirbúningur
Undirbúðu lista með 21 þematengdu verkefni eða nýttu þér þær tillögur sem við mælum með. Hægt er að bæta við tilvitnunum eða sjónrænum hjálpargögnum eins og ljósmyndum eða myndum.
Ef mögulegt er skaltu útvega þátttakendum dagbækur sem eru sérstaklega fyrir þessa æfingu.
Til að tryggja að verkefnin séu lögð fram á skilvirkan hátt skaltu ráðfæra þig við þátttakendur um hvaða aðferð henti þeim best:
Út prentaður verkefnalisti
Tölvupósthópur með tímasettum, sjálfvirkum áminningum
Hópur á samfélagsmiðli eða samskiptamiðli að eigin vali.
Leiðbeiningar
Láttu þátttakendur vita að þeim sé boðið í 21 dags ferðalag frásagnalista. Markmið æfingarinnar er að hvetja þá til að búa til sögur byggðar á ákveðnu efni með stuttum, daglegum æfingum. Áskorunin stendur yfir í 21 dag sem er sá lágmarks tími sem þarf til að gera varanlega breytingu í lífinu. Á hverjum degi munu þátttakendur ljúka við eitt verkefni sem á að vera hvati til þess að semja sögu. Mikilvægt er að skrifa söguna niður.
Gefðu þátttakendum eftirfarandi reglur til að styðja þá við að ljúka áskoruninni:
Skrifaðu án þess að hugsa, ekki ofurskilgreina, byrjaðu bara að skrifa.
Stöðugleiki er lykilatriði, skrifaðu alla daga (þó það sé bara ein setning), ekki fresta því.
Myndir og ljósmyndir skaltu skoða vandlega. Hvaða tengingar, minningar eða tilfinningar kallar þær fram? Vekja þær einhverja tilfinningu í líkamanum?
Tilvitnanir og setningar skaltu lesa meðvitað. Hvaða þýðingu hafa þær fyrir þig? Tengjast þær þinni reynslu eða hugsunum?
Hugleiðing, íhugaðu hvers vegna þessi ákveðna mynd eða setning kom upp sem áskorun fyrir þig í dag.
Skáldskapur eða raunveruleiki, þú getur skrifað persónulegar sögur eða skáldað þær svo framarlega sem þær hafa skýrt upphaf, miðju og endi.
Notaðu rammann Hetjuferðin, hann dýpkar sögurnar og byggir þær upp.
Eftir hverja æfingu skaltu skrifa stutta athugasemd: Hvernig leið þér við skrifin? Hvaða tilfinningar eða vangaveltur komu upp? Kom eitthvað á óvart?
Mikilvægast: Njóttu ferlisins og uppgötvaðu kraftinn í frásagnalist!
Gagnleg ráð
Þessa áskorun er hægt að framkvæma sem vinnustofu (á staðnum) eða á netinu með því að nota tölvupóst eða hópspjall. Í báðum útgáfum gefst tækifæri til að öðlast innblástur, íhuga og deila reynslu á hraða hvers og eins.
Samantekt
Eftir 21 dag skaltu biðja þátttakendur að deila reynslu sinni.
-Jókst sjálfstraust þeirra á eigin skrif?
-Áttuðu þeir sig á því hvort þeir vildu frekar vinna með ljósmyndir eða setningar?
-Hvernig hafði áskorunin áhrif á þá?
Hvettu þátttakendur til að deila sögum að eigin vali og legðu áherslu á fjölbreytta útkomu, sama kveikjan getur verið innblástur algjörlega ólíkra frásagna.
Minntu þá á að markmið áskorunarinnar var að skapa venjur við eigin skrif og upplifa jákvæðar breytingar. 21 dagur er fyrsta skrefið í átt að umbreytingu og ferðalag þeirra innan frásagnalistar getur haldið áfram!