Tilfinningakortið þitt
Einstaklingsæfing í meðvitaðri sjálfsskoðun og könnun á því hvernig tilfinningar birtast í líkamanum.
Tímalengd: 80 mínútur—Umræða um tilfinningahring Roberts Plutchiks: 15 mínútur, slökun: 10 mínútur, blöð undirbúin: 10 mínútur, æfing framkvæmd: 30 mínútur, samantekt: 15 mínútur.
Erfiðleikastig: 3/5
Undirbúningur
Pakki með mismunandi litum (að minnsta kosti 1 pakki fyrir hverja 2 þátttakendur). Pennar. Hvít A4 blöð (8 blöð fyrir hvern þátttakanda).
Kynning
Ræddu við þátttakendur um tilfinningar, hvað þær eru og hvernig þær tengjast hverri annarri og nýtið til þess Tilfinningahring Roberts Plutchiks sem viðmið.
Leiðbeindu þátttakendum í gegnum stutta slökun.
Biddu hvern þátttakanda að teikna einfalda mynd af öllum líkama sínum (frá toppi til táar) á hvert og eitt af þessum 8 blöðum með svörtum eða gráum lit. Líkaminn ætti að fylla allt blaðið.
Segðu þátttakendum að merkja hvert blað með mismunandi tilfinningum:
Depurð
Reiði
Andstyggð
Ótti
Sektarkennd
Gleði
Skömm
Traust
Leiðbeiningar
Biddu þátttakendur að greina hvert blað og merkja inn á það þá staði á líkamanum þar sem þeir finna þessa ákveðnu tilfinningu í þeim lit sem þeim finnst eiga við. Þeir geta annað hvort litað svæðin, gert tákn eða gert eitthvað sem gefur tilfinninguna til kynna (t.d. ótti—galopin augu, reiði—elding). Hvettu þátttakendur til að íhuga hvaða áhrif hver tilfinning hefur og spurðu: “Hvernig finn ég þessa tilfinningu? Þrengir hún að, snýst hún í hringi, breiðir hún úr sér, er þetta sársauki, þrýstingur, doði?” Þeir geta skrifað þessi áhrif við merkingarnar á blaðinu.
Þegar allar tilfinningar hafa verið kortlagðar íhuga þátttakendur hvenær þessar tilfinningar koma upp í lífi þeirra. Þeir geta skrifað niður þessar aðstæður við viðeigandi líkamssvæði eða á bakhlið blaðsins.
Þátttakendur svara spurningunni: “Hverju þarf ég á að halda þegar ég upplifi þessa tilfinningu?” Þeir skrifa þessa spurningu á bakhlið hvers blaðs og skrifa niður svörin sín. Markmiðið er að auka meðvitund og læra hvernig á að annast eigin tilfinningar.
Gagnleg ráð
Hvetjið þátttakendur til að líta yfir það sem þeir voru að gera og uppfæra tilfinningakort sín eftir því sem tíminn líður þar sem vinna með tilfinningar er ævilangt ferli.
Hvetjið þá til að kynna sér tækni til að losa sig við og vinna úr neikvæðum tilfinningum.
Kíkið á leiðbeiningar okkar Að styðja við sögur til að fá betri innsýn.
Samantekt
Þátttakendur geta notað eftirfarandi leiðbeinandi spurningar til að deila reynslu sinni:
Hvað kom þér á óvart í þessari æfingu?
Hvaða tilfinningar var auðvelt að staðsetja? Hverjar voru erfiðari? Hvers vegna?
Hvaða lituðu svæði fléttast saman þegar myndirnar eru bornar saman?
Hver líkamshlutanna þinna verður fyrir mestum áhrifum af sterkum tilfinningum?
Hvernig getur þú losað um neikvæðar tilfinningar á árangursríkan hátt?
Það getur verið hjálplegt að nota sniðmát fyrir Tilfinningakort líkamans í þessu ferli.