Skrunsaga
Kynnið þátttakendum skrunsögur og hjálpið þeim að búa til gagnvirkar og grípandi sögur með stafrænum miðlum.
Tímalengd: 4-5 klukkustundir. Þessi æfing er inngangur að skrunsögum en einnig er hægt að skipta henni í nokkrar lotur til að gefa þátttakendum tíma til að þróa sögur sínar betur.
Erfiðleikastig: 5/5
Undirbúningur
Búnaður: Tryggja að þátttakendur hafi aðgang að tölvum með nettengingu.
Hugbúnaður: Nota Google Sites sem aðalvettvang, forritið er ókeypis, auðvelt í notkun og hentar byrjendum. Komið með tengla á stutt, ókeypis kennslumyndbönd sem útskýra hvernig forritið virkar.
Pappír og pennar: Biðjið þátttakendur að skissa upp hugmynd að sögu á blað og skipta henni niður í skýrar einingar: inngangur, aðalatriði, myndefni, niðurstöðu.
Myndefni: Leggið til að þátttakendur noti myndir og myndskeið sem eru nú þegar til, finni höfundarréttarlaust efni á netinu eða búi til sitt eigið. Kynnið þeim verkfæri eins og Canva eða Google Slides til að búa til töflur, upplýsingar með grafískri uppsetningu eða sérsniðnar myndir.
Inngangur
Útskýrðu fyrir þátttakendum að skrunsaga sé frásagnaraðferð fyrir vefsíður og stafræna miðla þar sem sagan kemur smám saman í ljós þegar skrunað er niður síðu. Hún sameinar það að skruna og frásagnir með því að sýna nýjan texta, myndir, myndskeið eða hreyfimyndir á gagnvirkan hátt. Þessi nálgun gerir flóknar upplýsingar aðgengilegri og heldur athygli áhorfenda betur.
Leiðbeiningar
Opnið Google Sites og búið til nýja síðu.
Veljið og aðlagið efnisreiti með því að nota valmyndina hægra megin.
Setjið inn texta, myndir, myndskeið eða tengla í gegnum Insert valmyndina eða með því að hlaða upp efni.
Skiptið sögunni niður í skýrar einingar. Notið fyrirsagnir og myndefni til að leiðbeina áhorfendum.
Bætið við bakgrunni eða þemum til að leggja sjónræna áherslu á ákveðin atriði og auka fjölbreytni.
Smellið á Publish til að búa til hlekk til að deila skrunsögunni þinni með öðrum.
Gagnleg ráð
Vertu meðvitaður um að þegar þú birtir skrunsöguna þína verður hún aðgengileg öllum. Ekki deila persónuupplýsingum sem þú vilt ekki að séu opin öllum. Ekki nota efni sem þú hefur ekki rétt á að nota og notaðu staðgengla ef þörf krefur.
Samantekt
Biðjið þátttakendur um að segja frá sinni skrunsögu um leið og hún er sýnd á skjá. Biðjið þá að segja frá sköpunarferlinu, áskorunum og þeim ákvörðunum sem þeir tóku.
Kveikjur að umræðum:
Hvað veitti þér innblástur að sögunni þinni og af hverju valdir þú þetta efni?
Hvernig valdir þú myndefnið svo það myndi styðja við og gera meira úr sögunni þinni?
Hvernig upplifðir þú það að setja upp söguna þína á lóðréttu skrunformi? Fannst þér það auðvelt eða krefjandi?
Hvernig hafði það að skruna áhrif á frásagnarstílinn eða uppbyggingu sögunnar?
Hvaða hluti ferlisins fannst þér skemmtilegastur eða vakti mestu sköpunargleðina hjá þér?